Skip to main content

FORMÁLI

Guðni Th. Jóhannesson

Sjálfbærni er lykilorð um okkar daga og alla framtíð. Síðustu aldir hefur mannkyn allt stórbætt eigin hag. Okkur hefur lánast að nýta auðævi jarðar í ríkari mæli en formæðrum okkar og forfeðrum tókst kynslóð fram af kynslóð, öld eftir öld, árþúsund eftir árþúsund. Við virkjuðum vatnsafl betur en áður. Við fórum að nýta gufuafl og rafmagn, jarðefni og jarðhita. Við beisluðum kjarnorku, bjuggum til plast og önnur gerviefni og gengum inn í stafrænan heim. Við höfum bætt heilsu og aukið velmegun um víða veröld. Um leið höfum við eflt algild mannréttindi, málfrelsi og trúfrelsi, ferðafrelsi og ástfrelsi. Mannanna láni er þó misskipt. Sum okkar njóta allra lífsins gæða, önnur búa við sult og seyru, harðstjórn og harðneskju. Og við höfum gengið nærri móður náttúru. Búskapur okkar á jörðinni er orðinn ósjálfbær, hann hefur leitt yfir okkur loftslagsvá og nú stefnir í óefni ef ekkert er að gert. Sjálfbærni mun ekki leysa allan okkar vanda en án sjálfbærni í orði og verki er voðinn vís. Öll getum við lagt okkar af mörkum, öll munum við njóta góðs af framþróun á þessu sviði. Og öll eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun göfug og góð. Í markmiði 4 er sjónum beint að menntun fyrir alla, að öllum verði tryggður aðgangur að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi.

Í lið 4.7 er vikið að sambandi sjálfbærni og menntunar. Að því er stefnt að fyrir árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar. Ég hvet ykkur öll til að fræðast um sjálfbært samfélag og sjálfbæran lífsstíl. Ekkert okkar er fullkomið, öll getum við alltaf gert betur, en ef við leggjum okkur fram er ótrúlegt hversu miklu folk fær áorkað, hvert um sig og ekki síður í krafti fjöldans.

Kveðja forseta Íslands

Guðna Th. Jóhannessonar

Inngangur

Ólafur Páll Jónsson